RSS tengill
01.09.2008 18:06:22 / ims_handverk

Flottir líkjörar úr berjatýnslunni okkar

Bláberjalíkjör

Ef þessi líkjör er lagaður á berjatímanum í ágúst/september er hann tilbúinn í byrjun desember. Það er gaman á aðventunni að hlýja sér við minninguna um bláan berjamó sem farið var í um sumarið.

Fyllið hreina krukku af bláberjum og hellið sykri yfir eins og kemst. Fyllið síðan krukkuna með vodka og skrúfið lokið á. Hristið krukkuna annað slagið fram í desember. Síið þá vökvann í fallega flösku.

 

Krækiberjalíkjör

500 gr krækiber

2 dl hlynsíróp

2-3 dl sykur

1 flaska vodka (750 ml)

Tætið berin sundur í matvinnsluvél og setjið safann í pott ásamt hratinu. Hitið varlega og leysið sykur upp í vökvanum. Takið pottinn af hitanum og hellið vodka út í. Látið standa í 30 mín. Sigtið og setjið á flöskur. Geymið í 2-3 mánuði. Geymist í a.m.k. eitt ár.


» 0 hafa sagt sína skoðun

25.08.2008 22:15:36 / ims_handverk

SULTUTÍMINN AÐ FARA Í HÖND

Rifsberjahlaup

1 kg rifsber (látið svolítið af grænum berjum og stilkum fylgja með)

1 kg sykur

Skolið ber og setjið í pott og látið suðuna koma hægt upp. Sjóðið við vægan hita í 10 mínútur. Bætið sykri út í og sjóðið í 10 mínútur í viðbót. Hrærið í annað slagið á meðan sultan sýður. Síið í gegnum grisju og hellið hlaupinu í hreinar krukkur, látið kólna.

Bláberjahlaup

Uppskriftin miðast við fersk bláber. Ef þið notið frosin ber þurfið þið að nota sultuhleypi. Það má nota sömu uppskrift við að gera hrútaberjahlaup.

1 lítri bláberjasafi

1 kg sykur

Safi úr 1 sítrónu

Útbúið fyrst bláberjasafa. Setjið bláber í víðan pott ásamt svolitlu vatni. Fyrir hvert kíló af berjum er passlegt að nota ¾ af vatni. Látið krauma við vægan hita þar til öll berin eru sprungin. Sigtið í gegnum klút. Setjið bláberjasafann í pott og látið sjóða í 5 mín. Bætið sítrónusafanum út í. Takið pottinn af hellunni og hrærið sykrinum saman við, hrærið í þar til sykurinn er uppleystur. Hellið í hreinar krukkur og lokið strax.» 11 hafa sagt sína skoðun


Heimsóknir
Í dag:  67  Alls: 549959
Dagsetning
23. nóvember 2014
Klukkan